Feminískur laugardagur í Folkets Park!

2014-06-14 12.30.20Í dag heldur Nordisk Forum feminíska veislu í Folkets Park. Í allan dag verður fjölbreytt dagskrá sem samanstendur m.a. af tónleikum, námskeiðum, hópavinnu ofl. tileinkuð jafnrétti. Dagskráin hefst kl.12 og endar kl.03 í nótt.

Ladyfest Veranda er fyrst á dagskrá og stendur yfir kl.12-18. Ladyfest Malmö stendur fyrir viðburðinum en það er átaksverkefni til að berjast fyrir jafnrétti kynjanna á sviði menningar og eru reglulega haldnir feminískir menningarviðburðir á vegum verkefnisins. Í Ladyfest Veranda verður eitthvað fyrir alla, hvort sem þig langar að hlusta á upptökur af viðtölum og fyrirlestrum um jafnrétti eða dansa og hlusta á lifandi tónlist þá er Ladyfest eitthvað fyrir þig. Allir eru velkomnir að taka þátt, ræða saman og hlægja í feminískri lautarferð í grasinu!

 

Skrúðganga fólksins hefst svo kl.18.30 frá Triangel lestarstöðinni að Folkets Park. ATH. rútur fara frá Malmö Arena kl.18 að Triangel. Skrúðganga fólksins tengir saman þá sem tekið hafa þátt í dagskrá Nordisk Forum á Malmö Arena svæðinu við þá sem hafa notið dagsins í feminískum lautartúr. Með tónlist og dans mun skrúðgangan leiða tímabært jafnrétti kynjanna í gegnum götur Malmö. Á Triangel lestarstöðinni munu sjálfboðaliðar benda fólki á upphafsstað göngunnar. Við vonum að sem flestir taki þátt og við sjáum fram á skrúðgöngu sem iðar af lífi, gleði og kærleik. Víða um garðinn verða uppákomur, tónleikar og nóg af dans. Allur garðurinn verður skipulagður í kringum þau tólf þemu sem Nordisk Forum byggir á og boðið verður upp á afþreyingu og umræður út frá þeim.

Eftir skrúðgönguna verður hátíð á stóra sviðinu í Folkets Park kl.19-22. Grínistarnir Emma Knyckare og Josefin Johansson verða gestgjafar og spyrlar á stóra sviðinu. Anaye + Ney Ney (Femtastic) munu þeyta skífum og tvíburasysturnar í Say Lou Lou munu taka lagið en þær voru tilnefndar af BBC sem flytjendur ársins 2014. Marit Bergman sem áður var í bandinu Candysuck mun svo enda dagskránna á stóra sviðinu!

Að lokum verður svo hátíð til að fagna réttindabaráttu kvenna í gegnum tíðina í Amiralen kl.22-03 en Amiralen er í Folkets Park við Amiralsgatan. Hátíðin ber yfirskriftina Fögnum framtíðinni og spiluð verður tónlist síðustu hundrað ára en einnig verða óvænt atriði bæði á sviðinu og dansgólfinu.

Kommentarer stängda.